Lofsöngur Davíðs.
Ég tigna þig, Guð minn og konungur,
og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
Ég vegsama þig hvern dag
og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,
veldi hans er órannsakanlegt.
Kynslóð eftir kynslóð vegsamar verk þín,
segir frá máttarverkum þínum
og dýrlegum ljóma hátignar þinnar:
„Ég vil syngja um dásemdir þínar.“
Þær tala um mátt ógnarverka þinna:
„Ég vil segja frá stórvirkjum þínum.“
Þær víðfrægja mikla gæsku þína
og fagna yfir réttlæti þínu.