Þegar Jesús hafði lokið þessum dæmisögum hélt hann þaðan. Hann kom í ættborg sína og tók að kenna þeim í samkundu þeirra. Þeir undruðust stórum og sögðu: „Hvaðan kemur honum þessi speki og kraftaverkin? Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas? Og eru ekki systur hans allar hjá okkur? Hvaðan kemur honum þá allt þetta?“ Og þeir höfnuðu honum hneykslaðir.
En Jesús sagði við þá: „Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu og með heimamönnum.“ Og hann gerði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra.

Um þessar mundir spyr Heródes fjórðungsstjóri tíðindin af Jesú. Og hann segir við sveina sína: „Þetta er Jóhannes skírari, hann er risinn frá dauðum, þess vegna gerir hann þessi kraftaverk.“
En Heródes hafði látið taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar, bróður síns, því Jóhannes hafði sagt við hann: „Þú mátt ekki eiga hana.“ Heródes vildi deyða hann en óttaðist fólkið þar eð menn töldu hann vera spámann.
En á afmælisdegi Heródesar sté dóttir Heródíasar dans frammi fyrir gestunum og hreif Heródes svo að hann sór þess eið að veita henni hvað sem hún bæði um.
Að undirlagi móður sinnar segir hún: „Gef mér hér á fati höfuð Jóhannesar skírara.“
Konungur varð hryggur við en vegna eiðsins og gesta sinna bauð hann að veita henni þetta. Hann sendi böðla í fangelsið og lét hálshöggva Jóhannes þar. Höfuð hans var borið inn á fati og fengið stúlkunni en hún færði móður sinni.
Lærisveinar Jóhannesar komu, tóku líkið og greftruðu, fóru síðan og sögðu Jesú.