Þá hóf Jesús upp augun, leit á lærisveina sína og sagði:
„Sælir eruð þér, fátækir,
því að yðar er Guðs ríki.
Sælir eruð þér sem nú hungrar
því að þér munuð saddir verða.
Sælir eruð þér sem nú grátið
því að þér munuð hlæja.
Sælir eruð þér þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins.
Fagnið á þeim degi og leikið af gleði því að laun yðar eru mikil á himni og á sama veg fóru feður þeirra með spámennina.
En vei yður, þér auðmenn,
því að þér hafið fengið yðar skerf.
Vei yður, sem nú eruð saddir,
því að yður mun hungra.
Vei yður, sem nú hlæið,
því að þér munuð sýta og gráta.
Vei yður, þegar allir menn hæla yður því að eins fórst forfeðrum þeirra við falsspámennina.
En ég segi yður er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gerið þeim gott sem hata yður, blessið þá sem bölva yður og biðjið fyrir þeim er misþyrma yður. Slái þig einhver á kinnina skaltu og bjóða hina og taki einhver yfirhöfn þína skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka. Gef þú hverjum sem biður þig og ef einhver tekur frá þér það sem þú átt þá skaltu ekki krefja hann um það aftur. Og eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.
Og þótt þér elskið þá sem yður elska, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar elska þá líka sem þá elska. Og þótt þér gerið þeim gott sem yður gera gott, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar gera og hið sama. Og þótt þér lánið þeim sem þér vonið að muni borga, hvaða þökk eigið þér fyrir það? Syndarar lána einnig syndurum til þess að fá allt aftur.
Nei, elskið óvini yðar og gerið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn, og laun yðar munu verða mikil og þér verða börn Hins hæsta því að hann er góður við vanþakkláta og vonda. Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur.