Annan hvíldardag gekk Jesús í samkunduna og kenndi. Þar var maður nokkur með visna hægri hönd. En fræðimenn og farísear höfðu nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði á hvíldardegi, svo að þeir fengju tilefni að kæra hann. En hann vissi hugsanir þeirra og sagði við manninn með visnu höndina: „Statt upp og kom hér fram.“ Og hann stóð upp og kom. Jesús sagði við þá: „Ég spyr ykkur, hvort er heldur leyfilegt að gera gott eða gera illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða granda því?“ Jesús leit á þá alla, hvern af öðrum, og sagði við manninn: „Réttu fram hönd þína.“ Hann gerði svo og hönd hans varð heil.
En þeir urðu æfir við og ræddu sín á milli hvað þeir gætu gert Jesú.

En svo bar við um þessar mundir að Jesús fór til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs. Og er dagur rann kallaði hann til sín lærisveina sína, valdi tólf úr þeirra hópi og nefndi þá postula. Þeir voru: Símon, sem hann nefndi Pétur, Andrés bróðir hans, Jakob og Jóhannes, Filippus og Bartólómeus, Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson og Símon, kallaður vandlætari, og Júdas Jakobsson og Júdas Ískaríot sem varð svikari.

Jesús gekk ofan með þeim og nam staðar á sléttri flöt. Þar var stór hópur lærisveina hans og mikill fjöldi fólks úr allri Júdeu, frá Jerúsalem og sjávarbyggðum Týrusar og Sídonar, er komið hafði til að hlýða á hann og fá lækning meina sinna. Einnig voru þeir læknaðir er þjáðir voru af óhreinum öndum. Allt fólkið reyndi að snerta hann því að frá honum kom kraftur er læknaði alla.