Spekin hefur reist sér hús
og höggvið til sjö stólpa sína.
Hún hefur slátrað sláturfé sínu,
blandað vín sitt og búið borð sitt.
Hún hefur sent út þernur sínar,
hún kallar af hæðunum í borginni:
„Hver sem óreyndur er komi hingað.“
Og við hinn fávísa segir hún:
„Komið, etið mat minn og drekkið vínið
sem ég hef blandað.
Látið af flónsku, þá munuð þér lifa,
gangið á braut skynseminnar.“
Sá sem átelur háðskan mann verður aðhlátursefni
og sá sem ávítar hinn rangláta verður hafður að háði.
Ávítaðu ekki hinn háðska svo að hann hati þig ekki,
ávítaðu hinn vitra og hann mun elska þig.
Gefðu hinum vitra, þá verður hann að vitrari,
fræddu hinn réttláta og hann mun auka lærdóm sinn.
Að óttast Drottin er upphaf spekinnar
og að þekkja Hinn heilaga er hyggindi.
Með mínu fulltingi verða dagar þínir margir
og árum lífs þíns fjölgar.
Sértu vitur verður vitið þér til góðs
en sértu spottari þá mun það bitna á þér einum.
Heimskan er eirðarlaus,
léttúðug og veit ekkert.
Hún situr við dyr sínar,
býr sér sess á hæðum borgarinnar
til þess að kalla á þá sem fara hjá,
þá sem stefna fram á leið sinni:
„Hver sem óreyndur er komi hingað.“
Og við hinn fávísa segir hún:
„Stolið vatn er sætt
og lostætt er launetið brauð.“
Og hann veit ekki að þar eru heimkynni hinna dauðu,
að gestir hennar hafna í djúpum heljar.