Jesús kom nú ofan til Kapernaúm, borgar í Galíleu, og kenndi þeim á hvíldardegi. Urðu menn mjög snortnir af kenningu hans því að vald fylgdi orðum hans.
Í samkunduhúsinu var maður nokkur er haldinn var óhreinum, illum anda. Hann æpti hárri röddu: „Hvað vilt þú okkur, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma okkur? Ég veit hver þú ert, hinn heilagi Guðs.“
Jesús hastaði þá á hann og mælti: „Þegi þú og far út af honum.“ En illi andinn slengdi honum til jarðar og fór út af honum en varð honum ekki að meini.
Felmtri sló á alla og sögðu þeir hver við annan: „Hvílík ræða er þetta, hann skipar óhreinum öndum með myndugleik og valdi og þeir fara.“ Og orðstír Jesú barst út til allra staða þar í grennd.

Úr samkundunni fór Jesús í hús Símonar. En tengdamóðir Símonar var altekin sótthita og báðu þeir hann að hjálpa henni. Jesús gekk að, laut yfir hana og hastaði á sótthitann og fór hann úr henni. En hún reis jafnskjótt á fætur og gekk þeim fyrir beina.
Um sólsetur komu allir þeir er höfðu á sínum vegum sjúklinga haldna ýmsum sjúkdómum og færðu þá til Jesú. En hann lagði hendur yfir hvern þeirra og læknaði þá. Þá fóru og illir andar út af mörgum og æptu: „Þú ert sonur Guðs.“ En Jesús hastaði á þá og bannaði þeim að tala því að þeir vissu að hann var Kristur.

Þegar dagur rann gekk Jesús burt á óbyggðan stað en fólkið leitaði hans og fann hann. Það vildi aftra því að hann færi frá því. En Jesús sagði við það: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu.