Davíðssálmur.
Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín,
ljá eyra bæn minni þegar ég ákalla þig.
Bæn mín berist sem reykelsi fyrir auglit þitt
og upplyfting handa minna sem kvöldfórn.
Set þú, Drottinn, vörð við munn minn,
gæt hliðs vara minna.
Lát hjarta mitt eigi hneigjast að neinu illu
svo að ég fremji ekki óguðleg verk með illvirkjum.
Ég vil ekki bragða krásir þeirra.
Hinir réttlátu geta slegið mig
og hirt mig í kærleika
en olía guðlausra skal ekki smyrja höfuð mitt.
Stöðugt bið ég um hjálp gegn illsku þeirra.
Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti
munu menn skilja að orð mín voru mild.
Eins og þegar jörð er plægð og henni bylt
verður beinum þeirra dreift við gin heljar.
Augu mín horfa til þín, Drottinn,
hjá þér leita ég hælis,
sel mig ekki dauðanum á vald.
Varðveit mig fyrir gildru þeirra er sitja um mig
og fyrir snörum illvirkjanna.
Hinir óguðlegu falli í eigið net
þegar ég geng óhultur hjá.