Og María sagði:
Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert
og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.
En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín.
Nú kom sá tími að Elísabet skyldi verða léttari og ól hún son. Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni og samfögnuðu henni.
Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum. Þá mælti móðir hans: „Eigi skal hann svo heita heldur Jóhannes.“
En þeir sögðu við hana: „Enginn er í ætt þinni sem heitir því nafni.“ Bentu þeir þá föður hans að hann léti þá vita hvað sveinninn skyldi heita.
Hann bað um spjald og reit: „Jóhannes er nafn hans,“ og urðu þeir allir undrandi. Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga. Hann fór að tala og lofaði Guð. En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: „Hvers má vænta af þessu barni?“ Því að hönd Drottins var með honum.