Nú er svo komið að mér verður fórnfært og tíminn er kominn að ég taki mig upp. Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér heldur og öllum sem þráð hafa endurkomu hans.

Reyndu að koma sem fyrst til mín því að Demas hefur yfirgefið mig vegna þess að hann elskaði þennan heim. Hann er farinn til Þessaloníku. Kreskes er farinn til Galatíu og Títus til Dalmatíu. Lúkas er einn hjá mér.
Tak þú Markús með þér til mín. Hann er mér þarfur í þjónustunni. Týkíkus hef ég sent til Efesus.
Fær þú mér, þegar þú kemur, möttulinn, sem ég skildi eftir í Tróas hjá Karpusi, og bækurnar, einkanlega skinnbækurnar.
Alexander koparsmiður gerði mér margt illt. Drottinn mun gjalda honum eftir verkum hans. Gæt þín líka fyrir honum því að hann stóð mjög í gegn orðum okkar.
Í fyrstu málsvörn minni kom enginn mér til aðstoðar heldur yfirgáfu mig allir. Verði þeim það ekki tilreiknað. En Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft til þess að ég yrði til að fullna prédikunina og allar þjóðir fengju að heyra. Og ég varð frelsaður úr gini ljónsins.
Drottinn mun frelsa mig frá öllu illu og leiða mig hólpinn inn í sitt himneska ríki. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.
Heilsa þú Prisku og Akvílasi og heimili Ónesífórusar. Erastus varð eftir í Korintu en Trófímus skildi ég eftir sjúkan í Míletus. Flýt þér að koma fyrir vetur. Evbúlus sendir þér kveðju og Púdes og Línus og Kládía og allir bræðurnir.
Drottinn sé með þínum anda.
Náð sé með yður.