En þú hefur fylgt mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði í ofsóknum og þjáningum, slíkum sem ég varð fyrir í Antíokkíu, Íkóníum og Lýstru. Slíkar ofsóknir þoldi ég og Drottinn frelsaði mig úr þeim öllum.
Enda verða allir ofsóttir sem lifa vilja guðrækilega í Kristi Jesú. En vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villa aðra og villast sjálfir.
En halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið og hefur fest trú á þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.
Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, umvöndunar, leiðréttingar og menntunar í réttlæti til þess að sá sem trúir á Guð sé albúinn og hæfur ger til sérhvers góðs verks.

Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, heiti ég á þig með endurkomu hans og ríki fyrir augum: Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta og uppörva með stöðugri þolinmæði og fræðslu. Því að þann tíma mun að bera er menn þola ekki hina heilnæmu kenningu heldur hópa að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það sem kitlar eyrun. Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að kynjasögum. En ver þú algáður í öllu, þol illt, ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína.