Þú hefur myndað nýru mín,
ofið mig í móðurlífi.
Ég lofa þig fyrir það að ég er undursamlega skapaður,
undursamleg eru verk þín,
það veit ég næsta vel.
Bein mín voru þér eigi hulin
þegar ég var gerður í leyndum,
myndaður í djúpum jarðar.
Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni,
ævidagar mínir voru ákveðnir
og allir skráðir í bók þína
áður en nokkur þeirra var til orðinn.
Guð, hversu torskildar eru mér hugsanir þínar,
hversu stórfenglegur er fjöldi þeirra.
Ef ég vildi telja þær væru þær fleiri en sandkornin,
lyki ég við að telja þær vaknaði ég og ég væri enn hjá þér.
Ó, að þú, Guð, vildir fella níðingana.
Víkið frá mér, morðingjar.
Þeir tala um þig með illt í huga
og leggja nafn þitt við hégóma.
Ætti ég ekki að hata hatursmenn þína, Drottinn,
og hafa andstyggð á þeim sem rísa gegn þér?
Ég hata þá fullu hatri,
þeir eru orðnir óvinir mínir.
Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt,
rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar
og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi
og leið mig hinn eilífa veg.