Helguðu vinir sem hafið fengið köllun til himinsins. Horfið til Jesú, postula og æðsta prests þeirrar trúar sem við játum. Hann var trúr Guði, er hafði skipað hann, eins og var um Móse „í öllu hans húsi“. En hann er verður meiri dýrðar en Móse eins og sá er húsið gerði á meiri heiður en húsið sjálft. Sérhvert hús hefur einhver gert en Guð er sá sem allt hefur gert. Móse var að sönnu trúr í öllu hans húsi eins og þjónn. Hann átti að vitna um það sem boðað skyldi síðar en Kristur er sonur og er trúað fyrir að ráða yfir húsi hans. Og hans hús erum við ef við höldum djörfunginni og voninni sem við miklumst af.

Því er það eins og heilagur andi segir:
Ef þér heyrið raust hans í dag,
þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í eyðimörkinni
þegar feður yðar gerðu uppreisn og freistuðu mín.
Þeir freistuðu mín og reyndu mig
þótt þeir fengju að sjá verkin mín í fjörutíu ár.
Þess vegna reiddist ég kynslóð þessari
og sagði: Án afláts villast þeir í hjörtum sínum.
Þeir þekktu ekki vegu mína.
Og ég sór í bræði minni:
Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar.

Gætið þess, bræður og systur, að hafa ekkert illt í hjarta og láta engar efasemdir bægja ykkur frá lifanda Guði. Uppörvið heldur hvert annað hvern dag á meðan enn heitir „í dag“, til þess að enginn forherðist af táli syndarinnar. Því að við erum orðin hluttakar Krists svo framarlega sem við treystum honum staðfastlega allt til enda eins og í upphafi. Svo segir: „Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni.“ – Hverjir voru þá þeir sem heyrt höfðu og gerðu þó uppreisn? Voru það ekki einmitt allir þeir sem Móse hafði leitt út af Egyptalandi? Og hverjum „var hann gramur í fjörutíu ár“? Var það ekki þeim sem syndgað höfðu og báru beinin á eyðimörkinni? Og hverjum „sór hann að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans,“ nema hinum óhlýðnu? Við sjáum að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.