Til söngstjórans. Davíðssálmur.
Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,
hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Eigi er það orð á tungu minni
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Þú umlykur mig á bak og brjóst
og hönd þína hefur þú lagt á mig.
Sú þekking er undursamlegri en svo að ég fái skilið,
of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
Hvert get ég farið frá anda þínum,
hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig
og hægri hönd þín halda mér.
Og þótt ég segði: „Myrkrið hylji mig
og ljósið í kringum mig verði nótt,“
þá mundi myrkrið eigi verða þér of myrkt
og nóttin lýsa eins og dagur,
myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.