Hrópaðu af gleði, Síonardóttir!
Fagnaðu hástöfum, Ísrael!
Þú skalt kætast og gleðjast af öllu hjarta,
dóttirin Jerúsalem.
Drottinn hefur ógilt refsidóminn yfir þér,
hann hefur hrakið fjendur þína á brott.
Konungur Ísraels, Drottinn, er með þér,
engar ófarir þarftu framar að óttast.
Á þeim degi verður sagt við Jerúsalem:
„Óttastu ekki, Síon,
láttu ekki hugfallast.
Drottinn, Guð þinn, er hjá þér,
hin frelsandi hetja.
Hann mun fagna og gleðjast yfir þér,
hann mun hrópa af fögnuði þín vegna eins og á hátíðisdegi
og hugga með kærleika sínum
hina langþjáðu.“
Ég mun víkja frá þér ógæfunni,
smáninni sem á þér hvílir.
Á þeim tíma vitja ég þeirra
sem hafa þjakað þig.
Ég safna saman höltum og tvístruðum
og ég mun snúa smán þeirra í sæmd
og frægð um alla jörðina.
Á þeim tíma safna ég yður saman
og á þeim tíma leiði ég yður heim,
því að ég geri yður fræga og nafnkunna
meðal allra þjóða veraldar
þegar ég sný við högum yðar
í augsýn þeirra, segir Drottinn.