Þér, Eþíópíumenn,
fallið einnig fyrir sverði mínu.
Hann mun hefja arm sinn gegn norðri
og tortíma Assýríu,
gera Níníve að auðn,
að vatnslausri eyðimörk.
Þar munu hjarðir liggja,
allar tegundir dýra.
Dvergkrákur og uglur munu gera sér náttból
á súlum hennar.
Uglur væla í gluggum
og hrafnar krunka við þröskuldana
því að sedrusþilin hafa verið rifin.
Þetta var þá borg glaumsins,
sem uggði ekki að sér
og hugsaði í hjarta sínu:
„Ég og engin önnur.“
Hvílík auðn er hún orðin,
bæli villidýra.
Sá sem nú fer þar hjá
hnussar og veifar hendinni.

Vei þessari saurguðu,
vanhelguðu borg ofstopans.
Hún hefur óhlýðnast,
ekki tekið áminningum.
Hún hefur hvorki treyst Drottni
né nálgast Guð sinn.
Valdhafar hennar eru öskrandi ljón,
dómarar hennar úlfar næturinnar
sem ekki geyma ónagað bein til morguns.
Spámenn hennar eru svikulir
og brigðulir í orðum.
Prestar hennar vanhelga það sem heilagt er
og misbjóða lögmálinu.
En í borginni er hinn réttláti Drottinn,
hann aðhefst ekkert rangt.
Hann birtir dóm sinn á hverjum morgni,
það bregst ekki fremur en dögunin.
En hinn rangláti kann ekki að blygðast sín.