Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til hversdagsnota. Sá sem fær sig hreinan gert af slíkum ranglætisverkum verður ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hentugt til sérhvers góðs verks.
Flý þú æskunnar girndir en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið ásamt þeim sem ákalla Drottin af hreinu hjarta. En hafna þú heimskulegum og einskis nýtum þrætum. Þú veist að þær leiða af sér ófrið.
Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum. Hann á að vera hógvær er hann agar þá sem skipast í móti, í von um að Guð gefi þeim sinnaskipti sem leiði þá til þekkingar á sannleikanum og þeir komist til sjálfra sín og losni úr snöru djöfulsins sem hefur veitt þá til að gera vilja sinn.
En það skaltu vita að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Menn verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, illmálgir, óhlýðnir foreldrum, vanþakklátir, guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir og elska munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar en afneita krafti hennar. Forðastu þá.
Úr hópi þeirra eru mennirnir sem smeygja sér inn á heimilin og véla kvensniftir sem syndum eru hlaðnar og leiðast af margvíslegum fýsnum. Þær eru alltaf að reyna að læra en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum. Eins og þeir Jannes og Jambres stóðu í gegn Móse þannig standa þessir menn í gegn sannleikanum. Þeir eru menn hugspilltir og óhæfir í trúnni. En þeim verður ekki ágengt því að heimska þeirra verður hverjum manni augljós eins og líka heimska hinna varð.