Við Babýlonsfljót sátum vér og grétum
er vér minntumst Síonar.
Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar
því að þar heimtuðu verðir vorir söngljóð
og kúgarar vorir kæti:
„Syngið oss Síonarljóð.“
Hvernig gætum vér sungið Drottins ljóð
í framandi landi?
Ef ég gleymi þér, Jerúsalem,
þá visni hægri hönd mín.
Tungan loði mér við góm
hugsi ég ekki til þín,
ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.
Drottinn, mundu Edóms niðjum
dag Jerúsalem,
daginn þegar þeir sögðu:
„Rífið niður, rífið hana niður, allt til grunna.“
Babýlonsdóttir, þú sem tortímir.
Heill þeim sem geldur þér
það sem þú gerðir oss.
Heill þeim sem þrífur brjóstmylkinga þína
og slær þeim niður við stein.