Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.
Þegar þú gefur ölmusu skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér eins og hræsnarar gera í samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.
En þegar þú gefur ölmusu viti vinstri hönd þín ekki hvað sú hægri gerir svo að ölmusa þín sé í leynum og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.

Og þegar þér biðjist fyrir þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. En þegar þú biðst fyrir skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.
Þegar þér biðjist fyrir skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi eins og heiðingjarnir. Þeir hyggja að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína. Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit hvers þér þurfið áður en þér biðjið hann. En þannig skuluð þér biðja:
Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu.
[Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.]
Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.