Það auga, sem gerir gys að föður sínum
og hafnar hlýðni við móður sína,
munu hrafnarnir við lækinn kroppa úr
og arnarungarnir eta.
Þrennt er það sem mér þykir undursamlegt
og fernt sem ég fæ ekki skilið:
vegur arnarins um loftið,
vegur höggormsins á klettinum,
vegur skips á reginhafi
og vegur karls að konu.
Þannig er atferli skækjunnar:
Hún etur, þurrkar sér um munninn og segir:
„Ég hef ekkert rangt gert.“
Undan þrennu nötrar jörðin
og undir fernu getur hún ekki risið:
undir þræli þegar hann verður konungur
og ranglátum þegar hann mettast brauði,
undir forsmáðri konu þegar hún giftist
og þernu þegar hún bolar burt húsmóður sinni.
Fjórir eru smáir á jörðinni
og þó eru þeir vitrastir vitringa:
Maurarnir eru kraftlítil þjóð
og þó afla þeir sér forða á sumrin.
Stökkhérarnir eru þróttlítil þjóð
og þó gera þeir sér híbýli í klettunum.
Engispretturnar hafa engan konung
og þó fer allur hópurinn út í röð og reglu.
Eðluna getur þú gripið með hendinni
og þó er hún í konungahöllum.
Þrír eru tígulegir á velli
og fjórir tígulegir í gangi:
ljónið sem er máttugast meðal dýranna
og hopar ekki fyrir neinni skepnu,
haninn sem reigir sig, hafurinn
og konungur sem enginn fær í móti staðist.
Hafir þú glapist til að upphefja sjálfan þig
eða hafir þú gert það af ásettu ráði
leggðu þá höndina á munninn.
Sé mjólk strokkuð myndast smjör,
sé slegið á nasir blæðir,
sé egnt til reiði vakna deilur.