Jesús gekk með fram Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið en þeir voru fiskimenn. Hann sagði við þá: „Komið og fylgið mér og mun ég láta ykkur menn veiða.“ Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.
Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans. Þeir voru í bátnum með Sebedeusi, föður sínum, að búa net sín. Jesús kvaddi þá til fylgdar við sig og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.

Jesús fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal fólksins. Orðstír hans barst um allt Sýrland og menn færðu til hans alla sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum, voru haldnir illum öndum, tunglsjúka menn og lama. Og hann læknaði þá.
Mikill mannfjöldi fylgdi honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar.