Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“
Jesús svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“
Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“
Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“
Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann.