Hann laust frumburði Egyptalands,
bæði menn og skepnur,
sendi tákn og undur yfir þig, Egyptaland,
gegn faraó og öllum þjónum hans.
Hann felldi margar þjóðir
og deyddi volduga konunga,
Síhon, konung Amoríta,
Óg, konung í Basan,
og öll konungsríki í Kanaan.
Hann gaf þeim land þeirra að erfð,
erfðahlut handa Ísrael, lýð sínum.
Drottinn, nafn þitt varir að eilífu,
minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns
því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar
og miskunnar þjónum sínum.
Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull,
handaverk manna.
Þau hafa munn en tala ekki,
augu en sjá ekki,
eyru en heyra ekki
og enginn andardráttur er í munni þeirra.
Eins og þau eru verða smiðir þeirra,
allir þeir er á þau treysta.
Ísraels ætt, lofið Drottin,
Arons ætt, lofið Drottin,
Leví ætt, lofið Drottin,
þér sem óttist Drottin, lofið Drottin.
Lofaður sé Drottinn frá Síon,
hann sem býr í Jerúsalem.
Hallelúja.