Eftir Mark Thorntveit, prófessor í Gamlatestamentisfræðum við Luther Seminary, MN. Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi úr ensku.

Við skulum byrja á byrjuninni. Það er engin ein leið best til þess að lesa Biblíuna. Biblíulestur er góður og gagnlegur, hvernig svo sem þú lest (eða hlustar). Það er betra að lesa Biblíuna einu sinni í viku, á öðrum fæti og með appelsínugula skrípahárkollu en að lesa Biblíuna ekki! Með þessum fyrirvara, þá eru margar gagnlegar og góðar leiðir til að lesa Biblíuna.

Hefðbundin leið er að kaupa nýja Biblíu fyrir jólin, byrja á 1. kafla Fyrstu Mósebókar á nýársdag og ætla sér svo að þræða sig áfram alla leið í gegnum 22. kapítula Opinberunarbókarinnar á einu ári. Þessar góðu fyrirætlanir hrynja að jafnaði eins og spilaborg eftir þrjú fyrstu ættartöluversin í 5. kafla Fyrstu Mósebókar.

Ef þú hefur viljastyrkin til að komast í gegnum hver gat hvern í 5. kaflanum, þá bíða sex kaflar með leiðbeiningum um það hvernig innrétta skuli musterið, sem síðan er fylgt eftir með fimm kafla skýrslu með lagalegum fyrirmælum í 2. Mósebók (2Mós 25-31; 35-39). Já, og síðan eru níu kaflar af niðjatali í upphafi Fyrri Krónikubókar líklegir til að draga úr áhuganum.

Aðrar leiðir til að lesa Biblíuna eru aðeins betri. En ef styrjaldir og grimmd sem finnst í Gamla testamentinu vekja hjá þér óhug og ógeð, þá er líklegt að reiðilestur Jesú um að varpa andstæðingum guðsríkisins í eldsofninn, þar sem verður grátur og gnístran tanna (Matt 13.42) eða tillaga hans um að við sníðum hendur og/eða fætur af sem tæla okkur til falls (Mark 9.43-45) fari illa í þig.

Sumar Biblíulestraráætlanir samtvinna lestra á þann hátt að þú lest kafla eða tvo úr Fyrstu Mósebók samhliða kapítula eða tveimur úr Matteusarguðspjalli, auk Davíðssálms. Þetta getur víkkað áhugasvið lesandans og reynsluheim hans. Þetta hefur þó þann ókost í för með sér að söguleg samfella getur glatast, hvort heldur er í Fyrstu Mósebók eða Matteusarguðspjalli.

Til eru áætlanir sem hjálpa þér að lesa Biblíuna í réttri tímaröð eftir því hvenær atburðir áttu sér stað eða í þeirri röð sem bækurnar voru skrifaðar. Áætlanir sem byggja á ritunartíma bókanna geta hjálpað okkur að sjá hvernig frásagnir, hugmyndir og texti Biblíunnar þróast, en það skýtur skökku við að lesa bréf Páls á undan guðspjöllunum. Auk þess eru tímasetningar fræðimanna á einstökum hlutum Biblíunnar oft á reiki.

Það er mikilvægt að skilja að vandamálið við Biblíulestur felst ekki endilega í áætluninni sem er notuð. Fögur fyrirheit okkar um að lesa í Biblíunni reglubundið líkjast öðrum nýársheitum — að æfa, skokka eða fara í ræktina. Áformin fara vel af stað, en í þriðju eða fjórðu viku… …æi, þið vitið.

Maxwell Maltz heldur því fram í sjálfshjálparbókinni sinni Psycho-Cybernetics (1960, Psycho-Cybernetics-útgáfan) að það tæki meðalmanneskju þrjár vikur að þróa með sér nýja hegðun (með viðeigandi hætti). Phillippa Lally, sálfræðingur við University College háskólann í London, ásamt starfsfélögum sínum hefur síðan sýnt fram á að nær sé að tala um 66 daga og það gæti tekið allt upp í 245 daga að gera hegðunina að fastri venju.[1]

Augljóslega er þörf á einhverri leið til þess að hvetja þig til dáða þar til biblíulestur þinn verður „sjálfvirkur“ eins og Lally myndi orða það. Ég tel að besta leiðin til að skapa hefð sé að fá hjálp annarra. Sumar kirkjur bjóða upp á smáhópa sem hittast og lesa saman og ræða um Amos eða Jónas eða Galatabréfið eða hvað svo sem þátttakendur hafa lesið þann mánuðinn. Þau sem leiða hópinn sjá um að undirbúa spurningar til umræðu og safna upplýsingum um bakgrunn textans til að leiðbeina þátttakendum og glæða áhugann. Með því að koma saman reglubundið, skapar hópurinn skuldbindingu frá þátttakendum og hvetur þannig til reglulegs lesturs.

Að lokum eru hér nokkrar vangaveltur úr reynslubanka „þrautreynds“ lesanda Biblíunnar:

  1. Hraðinn hefur hér ekkert að segja. Það skiptir engu máli hvort þú klárar á einu ári, tveimur eða tuttugu og tveimur árum. Ralph Waldo Emerson komst svo að orði: „Þetta snýst allt um ferðalagið, ekki áfangastaðinn.“
  2. Lestu úr mismunandi þýðingum í hverjum mánuði. Barnabiblíur, myndasögur og umorðaðar Biblíur á borð við Lifandi orð eða Biblían á fimm mínútum geta gefið nýja sýn á textann. Notaðu hljóðbók Biblíunnar eða horfðu á kvikmyndir byggðar á texta Biblíunnar. Nokkrar íslenskar biblíuþýðingar er að finna á biblian.is, þér að kostnaðarlausu. Þú gætir fundið þá þýðingu sem þú elskar… eða hatar!
  3. Skoðaðu eitt rit í heila viku/heilan mánuð/heilt misseri. Þú getur valið að skoða mjög vel eitt guðspjall eða eitt bréfa Páls. Nú eða þá spádómsrit Hósea. Lestu textann í heild allnokkrum sinnum.
  4. Reyndu að lesa allt Markúsarguðspjall/alla Fyrstu Mósebók/Postulasöguna í einni lotu. Rit Biblíunnar átti aldrei að lesa í bútum eins og við heyrum þau lesin við helgihald kirkjunnar. Reyndar er ein merking hugtaksins „perikopë“ — sem er tæknilegt hugtak fyrir einstaklingsbundinn helgilestur á sígildri grísku — „misþyrming“ eða„ limlesting.“[2]
  5. Reyndu að lesa upphátt eða hlustaðu á hljóðbók með Biblíunni. Langflest heyrðu Biblíuna lesna en lásu hana ekki sjálf fyrr en á 15. öld. Stundum er sagt að Biblían hafi verið skrifuð fyrir eyru fremur en augu.
  6. Skáldið Mayu Angelou sagði: „Ég les Biblíuna fyrir sjálfa mig, ég tek hvaða þýðingu sem er, hvaða útgáfu sem er og les hana upphátt, bara til þess að heyra tungumálið, hlusta á taktinn, og minna sjálfa mig á hversu fagurt móðurmálið er.“[3]
  7. Að lokum, ef þú hefur lagt stund á grísku eða hebresku, íhugaðu það að lesa Biblíuna á upprunalegu tungumáli — lestu bara, þýddu ekki — ef til vill eitt vers á dag og sjáðu til hvað gerist… 

[1] Lally, P., van Jaarsveld, C. H. M. Potts, H. W .W. og Wardle J. (2010), How Are Habits Formed: Modelling Habit Formation in the Real World. Eur. J. Soc. Psychol., 40: 998- 1009.

[2] Liddell og Scott, Greek-English Lexicon, samandregið [London: Oxford, 1966] 549.

[3] Viðtal við Angelou, Maya, tekið af George Plimpton fyrir Paris Review, The Art of –Fiction nr. 119.

Greinin á ensku birtist á upphaflega á vefnum Enter the Bible (https://www.enterthebible.org/blog.aspx?m=3783&post=3546&fbclid=IwAR0e5bO4w1LDiRg326D-bSXaIdQ60J-EBWH_Yn7r71Bhhgz9ByEcIlQ7d8k)