1 Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Hann sagði:
Hallelúja! Hjálpræðið, dýrðin og mátturinn kemur frá Guði vorum.
2Sannir og réttlátir eru dómar hans.
Hann hefur dæmt skækjuna miklu sem spillti jörðunni með saurlifnaði sínum
og hann hefur refsað henni fyrir að deyða þjóna sína.
3 Og aftur var sagt: „Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda.“ 4 Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð sem í hásætinu situr og sögðu: „Amen, hallelúja!“
Brúðkaup lambsins
5 Og rödd barst frá hásætinu er sagði: „Lofsyngið Guði vorum, allir þjónar hans sem óttist hann, smáir og stórir.“ 6Og ég heyrði raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: „Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn. 7 Gleðjumst og fögnum og vegsömum hann því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig. 8 Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línklæðið er dygðir heilagra.“
9 Engillinn segir við mig: „Rita þú: Sælir eru þeir sem boðið er í brúðkaupsveislu lambsins.“ Og hann segir við mig: „Þetta eru hin sönnu orð Guðs.“ 10 Og ég féll fram fyrir fætur honum til að tilbiðja hann og hann segir við mig: „Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og systkina[ þinna sem hafa vitnisburð Jesú. Tilbið þú Guð. Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar.“