Hinn mikli múgur

9 Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum, stóð frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddur hvítum skikkjum og hafði pálmagreinar í höndum. 10 Og hann hrópaði hárri röddu:
Hjálpræðið kemur frá Guði vorum,
sem í hásætinu situr, og lambinu.

11 Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð 12 og sögðu:
Amen! Lofgjörðin og dýrðin,
viskan og þakkargjörðin,
heiðurinn og mátturinn og krafturinn
sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

13 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“
14 Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“
Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. 15 Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. 16 Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. 17 Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“