Jóhannes skírari vitnar

19 Þessi er vitnisburður Jóhannesar þegar ráðamenn[ í Jerúsalem sendu til hans presta og Levíta til að spyrja hann: „Hver ert þú?“
20 Hann svaraði ótvírætt og játaði: „Ekki er ég Kristur.“
21 Þeir spurðu hann: „Hvað þá? Ertu Elía?“
Hann svarar: „Ekki er ég hann.“
„Ertu spámaðurinn?“
Hann kvað nei við.
22 Þá sögðu þeir við hann: „Hver ert þú? Við verðum að svara þeim er sendu okkur. Hvað segir þú um sjálfan þig?“
23 Hann sagði: „Ég er sá sem Jesaja spámaður talar um. Ég er rödd hrópanda í eyðimörk er segir: Gerið beinan veg Drottins.“
24 Sendir voru menn af flokki farísea. 25 Þeir spurðu hann: „Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?“
26 Jóhannes svaraði: „Ég skíri með vatni. Mitt á meðal ykkar stendur sá sem þið þekkið ekki, 27 hann sem kemur eftir mig og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.“
28 Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.