Biblíulestur 15. desember – 3Mós 16.23–34

2021-01-04T17:07:20+00:00Miðvikudagur 15. desember 2021|

Þegar maðurinn hefur rekið geithafurinn út í eyðimörkina 23 skal Aron ganga aftur inn í samfundatjaldið, fara úr línklæðunum, sem hann fór í þegar hann gekk inn í helgidóminn, og skilja þau þar eftir.
24 Þá skal hann lauga líkama sinn í vatni á helgum stað og fara aftur í föt sín. Síðan skal hann ganga út og færa brennifórn sjálfs sín og þjóðarinnar. Þannig friðþægir hann fyrir sjálfan sig og þjóðina. 25 Hann skal láta mör syndafórnardýrsins líða upp í reyk af altarinu.
26 En maðurinn, sem rak geithafurinn til Asasels, skal þvo klæði sín og baða líkama sinn í vatni. Eftir það má hann fara aftur inn í herbúðirnar.
27 Þegar kálfurinn og geithafurinn hafa verið færðir í syndafórn og blóð þeirra borið inn í helgidóminn til friðþægingar skal flytja þá út fyrir herbúðirnar og brenna í eldi húðir þeirra, kjöt og gor. 28 Sá sem brennir þetta skal þvo klæði sín og baða líkama sinn í vatni. Eftir það má hann fara aftur inn í herbúðirnar.
29 Þetta skal vera föst regla hjá ykkur um aldur og ævi: Á tíunda deginum í sjöunda mánuðinum skuluð þið fasta og ekki vinna neitt verk, hvorki innfæddir né aðkomumenn sem búa á meðal ykkar, 30 því að á þessum degi er friðþægt fyrir ykkur svo að þið hreinsist. Frammi fyrir Guði verðið þið hreinir af öllum syndum ykkar. 31 Þið skuluð hvílast algjörlega og fasta, það er ævarandi regla.
32 Presturinn, sem hefur verið smurður og settur til að gegna prestsembætti í stað föður síns, skal friðþægja. Hann skal búast línklæðum, hinum helgu klæðum, 33 og friðþægja fyrir hið allra helgasta, samfundatjaldið og altarið, fyrir prestana og alla í söfnuðinum. 34 Þetta skal vera föst regla hjá ykkur um aldur og ævi. Einu sinni á ári skal friðþægja fyrir Ísraelsmenn vegna allra synda þeirra.“
Aron gerði eins og Drottinn hafði boðið Móse.

Title

Fara efst