11 Aron skal færa fram sinn eigin nautkálf sem ætlaður er til syndafórnar og friðþægja fyrir sjálfan sig og ætt sína.
12 Hann skal taka glóðarker fullt af glóandi kolum af altarinu frammi fyrir augliti Drottins og báða lófa fulla af muldu ilmandi reykelsi, fara með það inn fyrir fortjaldið 13 og leggja reykelsið á eldinn frammi fyrir augliti Drottins. Þá hylur reykelsisskýið lokið sem er yfir sáttmálanum svo að hann deyi ekki. 14 Því næst skal hann taka nokkuð af blóði nautkálfsins og stökkva því með vísifingri ofan á lokið framanvert. Hann skal einnig stökkva nokkru af blóðinu með vísifingri sjö sinnum frammi fyrir lokinu.
15 Þá skal hann slátra hrút þjóðarinnar sem ætlaður er til syndafórnar. Hann skal fara með blóðið úr honum inn fyrir fortjaldið og fara með það eins og hann fór með blóð nautkálfsins og stökkva því bæði á lokið og frammi fyrir lokinu. 16 Þannig friðþægir hann fyrir helgidóminn vegna óhreinleika og afbrota Ísraelsmanna, vegna allra synda þeirra. Á sama hátt skal hann fara með samfundatjaldið sem er meðal þeirra, mitt í óhreinleika þeirra.
17 Enginn maður má vera viðstaddur í samfundatjaldinu frá því að hann gengur inn til að friðþægja í helgidóminum og þar til hann gengur út. Þegar hann hefur friðþægt fyrir sjálfan sig, fjölskyldu sína og allan söfnuð Ísraels 18 skal hann ganga út og að altarinu, sem stendur frammi fyrir augliti Drottins, og friðþægja fyrir það. Hann skal taka nokkuð af blóðinu úr nautkálfinum og geithafrinum og bera á horn altarisins allt í kring. 19 Hann skal stökkva nokkru af blóðinu með vísifingri sjö sinnum á altarið. Þannig hreinsar hann það af óhreinleika Ísraelsmanna og helgar það. 20 Þegar hann hefur lokið við að friðþægja fyrir helgidóminn, samfundatjaldið og altarið skal hann færa fram þann geithafur sem er á lífi.
21 Aron skal þá leggja báðar hendur á höfuð geithafursins, sem er á lífi, og játa yfir honum öll afbrot Ísraelsmanna, allar misgjörðir þeirra og syndir. Hann skal leggja þær á höfuð geithafursins og reka hann síðan út í eyðimörkina með manni sem bíður ferðbúinn. 22 Geithafurinn ber þannig öll afbrot þeirra út í óbyggðina.