Friðþægingardagurinn

1 Drottinn talaði við Móse eftir að tveir synir Arons létust þegar þeir gengu fram fyrir Drottin. 2 Drottinn sagði við Móse:
„Ávarpaðu Aron, bróður þinn, og segðu að hann megi ekki hvenær sem er ganga inn í helgidóminn inn fyrir fortjaldið, fram fyrir lokið sem er ofan á örkinni. Þá mun hann ekki deyja þegar ég birtist í skýi yfir lokinu.
3 Aron skal koma inn í helgidóminn með nautkálf í syndafórn og hrút í brennifórn. 4 Hann skal klæðast heilögum línkyrtli og vera í línbuxum næst sér og hnýta um sig línbelti. Hann skal setja á sig vefjarhött úr líni. Þetta eru heilög klæði og þess vegna skal hann baða líkama sinn í vatni áður en hann klæðist þeim.
5 Hann skal taka við tveimur geithöfrum frá söfnuði Ísraelsmanna í syndafórn og einum hrút í brennifórn.
6 Þá skal Aron færa fram sinn eigin nautkálf sem ætlaður er til syndafórnar og friðþægja fyrir sjálfan sig og fjölskyldu sína.
7 Því næst skal hann sækja báða geithafrana og færa þá fram fyrir auglit Drottins við inngang samfundatjaldsins. 8Þá skal Aron kasta hlutkesti um geithafrana og er annar hluturinn fyrir Drottin og hinn fyrir Asasel. [ 9 Síðan skal Aron leiða fram geithafurinn, sem hlutur Drottins féll á, og færa hann í syndafórn. 10 En geithafurinn, sem hlutur Asasels féll á, skal hann færa lifandi fram fyrir auglit Drottins til friðþægingar með því að senda hann út í eyðimörkina til Asasels.