1 Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus, bróðir hans, í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene, 2 í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. 3 Og hann fór um alla Jórdanbyggð og boðaði mönnum að taka sinnaskiptum og láta skírast til fyrirgefningar synda, 4 eins og ritað er í bók Jesaja spámanns:
Rödd hrópanda í eyðimörk:
Greiðið veg Drottins,
gerið beinar brautir hans.
5Öll gil skulu fyllast,
öll fell og hálsar jafnast,
bugður verða beinar
og óvegir sléttar götur.
6Og allir munu sjá hjálpræði Guðs.
7 Við mannfjöldann, sem fór út til að láta hann skíra sig, sagði hann: „Þið nöðrukyn, hver kenndi ykkur að flýja komandi reiði? 8 Sýnið í verki að þið hafið tekið sinnaskiptum og farið ekki að segja með sjálfum ykkur: Við eigum Abraham að föður. Ég segi ykkur að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. 9 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað.“

15 Allir voru nú fullir eftirvæntingar og hugsuðu með sjálfum sér hvort Jóhannes kynni að vera Kristur. 16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: „Ég skíri ykkur með vatni en sá kemur sem mér er máttugri og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi. 17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gerhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.“
18 Með mörgu öðru hvatti hann fólk og flutti því fagnaðarboðin.