11Þetta boð, sem ég legg fyrir þig í dag, er ekki óskiljanlegt eða fjarlægt þér. 12 Það er ekki uppi í himninum svo að þú þurfir að spyrja: „Hver vill stíga upp í himininn og sækja það og kunngjöra okkur það svo að við getum framfylgt því?“ 13 Það er ekki heldur handan hafsins svo að þú þurfir að spyrja: „Hver vill fara yfir hafið fyrir okkur og sækja það og kunngjöra okkur það svo að við getum framfylgt því?“
14 Nei, orðið er mjög nærri þér, í munni þínum og hjarta svo að þú getur breytt eftir því.
Blessun og líf, bölvun og dauði
15 Hér með legg ég fyrir þig líf og heill, dauða og óheill.
16 Ef þú hlýðir boðum Drottins, sem ég set þér í dag, með því að elska Drottin, Guð þinn, ganga á vegum hans og halda boð hans, ákvæði og lög, munt þú lifa og þér mun fjölga og Drottinn, Guð þinn, mun blessa þig í landinu sem þú heldur nú inn í til að taka það til eignar.
17 En ef hjarta þitt gerist fráhverft og þú hlýðir ekki og lætur tælast til að sýna öðrum guðum lotningu og þjóna þeim, 18 lýsi ég því hér með yfir að ykkur verður gereytt. Þið munuð þá ekki lifa lengi í landinu sem þú heldur inn í yfir Jórdan að taka til eignar.
19 Ég kveð bæði himin og jörð til vitnis gegn ykkur í dag: Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða, blessun og bölvun. Veldu þá lífið svo að þú og niðjar þínir megið lifa 20 með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann því að þá muntu lifa og verða langlífur í landinu sem Drottinn hét að gefa feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakobi.