Heimför heitið

1 Þegar allt þetta, blessunin og bölvunin sem ég hef lagt fyrir þig í dag, er yfir þig komið og þú minnist þeirra orða á meðal allra þeirra þjóða sem Drottinn, Guð þinn, hrekur þig til, 2 munt þú og niðjar þínir snúa ykkur aftur til Drottins, Guðs þíns. Þið munuð hlýða boði hans af öllu hjarta og allri sálu, öllu sem ég býð þér í dag, 3 þá mun Drottinn, Guð þinn, snúa við högum þínum. Hann mun sýna þér miskunn og safna þér saman frá öllum þeim þjóðum sem Drottinn, Guð þinn, hafði dreift þér á meðal. 4 Jafnvel þótt nokkrir ykkar hafi hrakist allt til endimarka himins mun Drottinn, Guð þinn, safna ykkur saman og sækja þangað. 5 Og Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig aftur inn í landið sem forfeður þínir tóku til eignar. Þú munt taka það til eignar og hann mun láta þér farnast betur og gera þig fjölmennari en forfeður þína.
6 Drottinn, Guð þinn, mun umskera hjarta þitt og hjarta niðja þinna svo að þú elskir Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni svo að þú lifir. 7 Þá mun Drottinn, Guð þinn, leggja allar þessar bölvanir á fjandmenn þína og andstæðinga sem hafa ofsótt þig. 8 En sjálfur munt þú snúa við, hlýða boði Drottins og framfylgja öllum boðum hans sem ég set þér í dag. 9 Og Drottinn, Guð þinn, mun veita þér ríkulega í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur og í ávexti kviðar þíns, í ávexti búfjár þíns og í ávexti lands þíns því að Drottinn mun aftur gleðjast yfir þér, þér til heilla, eins og hann gladdist yfir forfeðrum þínum 10 ef þú hlýðir boði Drottins, Guðs þíns, að halda fyrirmæli hans og lög sem skráð eru á þessa lögbók og ef þú snýrð aftur til Drottins, Guðs þíns, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni.