Mannssonurinn kemur

25 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. 26 Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. 27 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. 28 En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“

Gætið að fíkjutrénu

29 Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. 30 Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. 31 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.
32 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. 33Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.