Mismunið ekki mönnum

1 Bræður mínir og systur,[ þið sem trúið á Jesú Krist, dýrðardrottin okkar, farið ekki í manngreinarálit. 2 Nú kemur maður inn í samkundu ykkar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum. 3 Ef öll athygli ykkar beinist að þeim sem skartklæðin ber og þið segið: „Settu þig hérna í gott sæti!“ en segið við fátæka manninn: „Stattu þarna eða settu þig á gólfið við fótskör mína,“ 4 hafið þið þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með illum hvötum?
5 Heyrið, elskuð systkin.[ Hefur Guð ekki útvalið þá sem eru fátækir í augum heimsins til þess að þeir verði auðugir í trú og erfi ríkið er hann hefur heitið þeim sem elska hann? 6 En þið hafið óvirt hinn fátæka. Eru það þó ekki hinir ríku sem undiroka ykkur og draga ykkur fyrir dómstóla? 7 Eru það ekki þeir sem lastmæla hinu góða nafni sem nefnt var yfir ykkur?
8 Ef þið uppfyllið hið konunglega boðorð Ritningarinnar: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig,“ þá gerið þið vel. 9 En ef þið farið í manngreinarálit þá drýgið þið synd og lögmálið sannar upp á ykkur að þið séuð brotamenn. 10 Þótt einhver héldi allt lögmálið en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess. 11 Því sá sem sagði: „Þú skalt ekki hórdóm drýgja,“ hann sagði líka: „Þú skalt ekki morð fremja.“ En þó að þú drýgir ekki hór en fremur morð, þá ertu búinn að brjóta lögmálið. 12 Talið því og breytið eins og þeir er dæmast eiga eftir lögmáli frelsisins. 13 Því að þeim sem ekki auðsýndi miskunn verður ekki sýnd nein miskunn í dóminum. Í dóminum má miskunnsemin sín mest.