2. kafli

Drottinn hvíldardagsins

23 Svo bar við að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. 24Farísearnir sögðu þá við hann: „Lít á, hví gera þeir það sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?“
25 Jesús svaraði þeim: „Hafið þið aldrei lesið hvað Davíð gerði er honum lá á þegar hann hungraði og menn hans? 26 Hann fór inn í Guðs hús þegar Abíatar var æðsti prestur og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.“
27 Og Jesús sagði við þá: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. 28 Því er Mannssonurinn einnig Drottinn hvíldardagsins.“

3. kafli

Á hvíldardegi

1 Öðru sinni gekk Jesús í samkunduhús. Þar var maður með visna hönd 2 og höfðu þeir nánar gætur á Jesú hvort hann læknaði hann á hvíldardegi. Þeir hugðust kæra hann. 3 Og Jesús segir við manninn með visnu höndina: „Statt upp og kom hér fram!“ 4 Síðan spyr hann þá: „Hvort er heldur leyfilegt að gera gott eða gera illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða deyða?“
En þeir þögðu. 5 Og Jesús leit á þá með reiðisvip, hvern á eftir öðrum, sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra og sagði við manninn: „Réttu fram hönd þína.“ Hann rétti fram höndina og hún varð heil. 6 Þá gengu farísearnir út og tóku þegar með Heródesarsinnum saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans.