1 Orð Agúrs Jakesonar frá Massa,
orð mannsins við Ítíel, Ítíel og Úkal:
2Ég er heimskari en svo að geta talist maður,
ég hef ekki mannsvit,
3ég hef ekki lært speki
og ekki hef ég þekkingu á Hinum heilaga.
4Hver hefur stigið upp til himna og komið niður?
Hver hefur safnað vindinum í greipar sínar?
Hver hefur bundið vötnin í skikkju sína?
Hver hefur ákvarðað endimörk jarðar?
Hvað heitir hann og hvað heitir sonur hans, veist þú það?
5Sérhvert orð Guðs er hreint,
hann er skjöldur þeim er leita hælis hjá honum.
6Bættu engu við orð hans
til þess að hann ávíti þig ekki og geri þig beran að lygum.
7Um tvennt bið ég þig,
synjaðu mér þess ekki áður en ég dey:
8Lát fals og lygi vera fjarri mér,
gef mér hvorki fátækt né auðæfi
en veit mér minn deildan verð.
9Ég kynni annars að verða of saddur og afneita
og segja: „Hver er Drottinn?“
Ef ég yrði fátækur kynni ég að stela
og misbjóða nafni Guðs míns.
10Rægðu ekki þjóninn við húsbónda hans
svo að hann biðji þér ekki bölbæna og þú verðir að gjalda þess.
11Til er það kyn sem bölvar föður sínum
og blessar ekki móður sína,
12kyn sem þykist vera hreint
og hefur þó ekki þvegið af sér saurinn,
13kyn sem er drembilátt og hnakkakerrt,
14kyn sem hefur sverð að tönnum og hnífa að jöxlum
til að uppræta hina fátæku úr landinu
og hina snauðu meðal mannanna.
15Blóðsugan á tvær dætur sem heita Gefðu! Gefðu!
Þrennt er til sem er óseðjandi, fernt sem aldrei segir: „Það er nóg.“
16Helja og móðurlíf óbyrjunnar,
jörðin sem aldrei seðst af vatni
og eldurinn sem aldrei segir: „Nú er nóg.“