Ný Jerúsalem

9 Nú kom einn af englunum sjö, sem héldu á skálunum sjö, sem fullar voru af síðustu plágunum sjö, og talaði við mig og sagði: „Kom hingað og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins.“ 10 Og hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem steig niður af himni frá Guði. 11 Hún hafði dýrð Guðs. Ljómi hennar var líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær. 12 Hún hafði mikinn og háan múr og tólf hlið og við hliðin stóðu tólf englar og nöfn þeirra tólf kynkvísla Ísraelsmanna voru rituð á hliðin tólf. 13 Móti austri voru þrjú hlið, móti norðri þrjú hlið, móti suðri þrjú hlið og móti vestri þrjú hlið. 14 Og múr borgarinnar hafði tólf undirstöðusteina og á þeim nöfn hinna tólf postula lambsins.
15 Og sá sem við mig talaði hélt á gullkvarða til að mæla borgina, hlið hennar og múr. 16 Borgin liggur í ferhyrning, jöfn á lengd og breidd. Og hann mældi borgina með kvarðanum og var hún tólf þúsund skeið. Lengd hennar og breidd og hæð voru jafnar. 17 Og hann mældi múr hennar. Eftir kvarða manns, sem engillinn notaði líka, var hann hundrað fjörutíu og fjórar álnir. 18 Múr hennar var byggður af jaspis og borgin af skíra gulli, sem skært gler væri. 19Undirstöðusteinar borgarmúrsins voru skreyttir alls konar gimsteinum. Fyrsti undirstöðusteinninn var jaspis, annar safír, þriðji kalsedón, fjórði smaragður, 20 fimmti sardónyx, sjötti sardis, sjöundi krýsólít, áttundi beryll, níundi tópas, tíundi krýsópras, ellefti hýasint, tólfti ametýst. 21 Og hliðin tólf voru tólf perlur og hvert hlið úr einni perlu. Og stræti borgarinnar var af skíru gulli, sem gagnsætt gler.