42 Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu en upp rís óforgengilegt. 43 Sáð er í vansæmd en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika en upp rís í styrkleika. 44 Sáð er jarðneskum líkama en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami. 45 Þannig er og ritað: „Hinn fyrsti maður, Adam, varð lifandi sál,“ hinn síðari Adam lífgandi andi. 46 En hið andlega kemur ekki fyrst heldur hið jarðneska, því næst hið andlega. 47Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni. 48 Eins og hinn jarðneski var, þannig eru og hinir jarðnesku og eins og hinn himneski, þannig eru og hinir himnesku. 49 Og eins og við höfum borið mynd hins jarðneska munum við einnig bera mynd hins himneska.
50 Það segi ég, systkin,[ að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann. 51 Sjá, ég segi ykkur leyndardóm: Við munum ekki öll deyja en öll munum við umbreytast, 52 í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu dauðir upp rísa óforgengilegir og við munum umbreytast. 53 Forgengilegir og dauðlegir líkamir okkar eiga að breytast í óforgengilega líkami sem dauðinn nær ekki til.
54 En þegar það gerist og hið forgengilega breytist og verður ódauðlegt, þá rætist það sem ritað er:
Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.
55 Dauði, hvar er sigur þinn?
Dauði, hvar er broddur þinn?

56 En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar. 57 Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist! 58 Þess vegna, mín elskuðu systkin,[ verið staðföst, óbifanleg, síauðug í verki Drottins. Þið vitið að Drottinn lætur erfiði ykkar ekki verða til ónýtis.