29 Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá? 30 Hví skyldi ég vera að leggja mig í lífshættu hverja stund? 31 Svo sannarlega sem ég má miklast af ykkur í Kristi Jesú, Drottni vorum: Dauðinn vofir yfir mér hvern dag. 32 Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum við! 33 Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum. 34 Vaknið til fulls og hættið að syndga. Sum ykkar þekkja ekki Guð. Það segi ég ykkur til blygðunar.

Hvernig rísa dauðir upp?

35 En nú kynni einhver að spyrja: „Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir þegar þeir koma?“ 36Heimskulega spurt! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi. 37 Og er þú sáir þá er það ekki sú jurt er vex upp síðar sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ. 38 En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama. 39 Ekki eru allir líkamir eins heldur hafa mennirnir sinn, kvikféð annan, fuglarnir sinn og fiskarnir annan. 40 Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað. 41 Eitt er ljómi sólarinnar, annað ljómi tunglsins og enn annað ljómi stjarnanna því að stjarna ber af stjörnu í ljóma.