25 Hún lagði af stað og kom til guðsmannsins á Karmelfjalli. Þegar guðsmaðurinn sá hana álengdar sagði hann við Gehasí, þjón sinn: „Þarna kemur konan frá Súnem. 26 Hlauptu nú á móti henni og spyrðu hana: Hvernig líður þér? Hvernig líður manni þínum og drengnum?“ „Okkur líður vel,“ svaraði hún. 27 Þegar hún kom til guðsmannsins á fjallinu greip hún um fætur hans. Gehasí kom þá og ætlaði að ýta henni frá en guðsmaðurinn sagði: „Láttu hana vera því að hún er örvæntingarfull. En Drottinn hefur leynt orsök þess fyrir mér og ekki sagt mér frá því.“
28 Þá sagði hún: „Bað ég herra minn um son? Sagði ég ekki: Vektu mér ekki tálvonir.“ 29 Hann sagði þá við Gehasí: „Bind upp kyrtil þinn, taktu staf minn í hönd þér og haltu af stað. Ef þú mætir einhverjum skaltu ekki heilsa og ef einhver heilsar þér skaltu ekki taka undir. Leggðu svo staf minn á andlit drengsins.“ 30 En móðir drengsins sagði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir mun ég ekki yfirgefa þig.“ Hann stóð þá á fætur og fylgdi henni.
31 Gehasí hafði farið á undan þeim og lagt stafinn á andlit drengsins en ekkert hljóð heyrðist og ekkert lífsmark var með honum. Hann sneri þá til móts við Elísa og skýrði honum frá þessu og sagði: „Drengurinn vaknar ekki.“
32 Þegar Elísa kom inn í húsið lá drengurinn dáinn á rúmi hans. 33 Hann gekk þá inn til hans, lokaði dyrunum og bað til Drottins. 34 Síðan lagðist hann upp í rúmið og yfir drenginn. Hann lagði munn sinn við munn hans, augu sín við augu hans og hendur sínar við hendur hans. Þegar hann lagðist þannig yfir hann færðist hiti í líkama drengsins. 35 Því næst fór hann og gekk einu sinni fram og aftur um húsið. Síðan lagðist hann upp í rúmið og yfir drenginn. Þá hnerraði drengurinn sjö sinnum og opnaði augun.
36 Elísa kallaði á Gehasí og sagði: „Kallaðu á súnemsku konuna.“ Hann kallaði á hana. Þegar hún kom inn til hans sagði hann við hana: „Taktu son þinn upp.“ 37 En hún kom til hans, féll til fóta honum og laut til jarðar. Síðan tók hún son sinn og gekk út.