Elísa og ríka konan í Súnem

8 Dag nokkurn átti Elísa leið um Súnemborg. Þar bjó auðug kona sem bauð honum að þiggja mat hjá sér. Upp frá því mataðist hann hjá henni þegar hann fór þar um.
9 Hún sagði við eiginmann sinn: „Ég er viss um að maðurinn sem jafnan kemur við hjá okkur er heilagur guðsmaður. 10 Við skulum útbúa lítið herbergi uppi á lofti og koma þar fyrir rúmi, borði, stól og lampa handa honum. Þegar hann kemur til okkar getur hann dvalist þar.“
11 Dag nokkurn, þegar Elísa kom þangað, flutti hann inn í loftherbergið til þess að sofa þar. 12 Hann sagði við Gehasí, þjón sinn: „Kallaðu á þessa súnemsku konu,“ og hann kallaði á hana. Þegar hún kom 13 sagði hann við Gehasí: „Spyrðu hana: Hvað get ég gert fyrir þig þar sem þú hefur haft svona mikið fyrir okkur? Eigum við að tala máli þínu við konunginn eða yfirhershöfðingjann?“ Hún svaraði: „Ég bý mitt á meðal skyldmenna minna.“ 14 Þegar Elísa spurði hvað hann gæti þá gert fyrir hana svaraði Gehasí: „Hún á engan son og maður hennar er orðinn gamall.“ 15 Hann sagði: „Kallaðu á hana.“ Þegar Gehasí hafði kallað á hana og hún stóð í dyragættinni 16 sagði Elísa: „Að ári liðnu um þetta leyti muntu halda á syni í fanginu.“ Hún sagði: „Nei, herra, guðsmaður. Ljúgðu ekki að ambátt þinni.“ 17 En konan varð þunguð og fæddi son um sama leyti að ári liðnu eins og Elísa hafði heitið henni.
18 Þegar drengurinn var kominn á legg gekk hann dag nokkurn út til föður síns og uppskerufólksins 19 og kveinkaði sér við föður sinn: „Æ, höfuðið á mér, höfuðið á mér.“ Faðir hans skipaði þá vinnumanni einum að bera hann heim til móður sinnar.“ 20 Hann bar hann heim og færði hann móður sinni. Drengurinn sat svo í kjöltu hennar til hádegis. Þá dó hann. 21 Hún gekk upp, lagði drenginn á rúm guðsmannsins og lokaði á eftir sér. Síðan gekk hún út, 22 kallaði á eiginmann sinn og sagði: „Sendu einhvern vinnumannanna til mín og einn asna. Ég ætla að flýta mér til guðsmannsins. Ég kem strax aftur.“ 23 Hann spurði: „Hvers vegna ætlarðu að fara til hans í dag? Það er hvorki nýtt tungl né hvíldardagur.“[ En hún kvaddi, 24 lagði á asnann og skipaði vinnumanninum: „Rektu asnann af stað og stöðvaðu ekki för mína fyrr en ég segi þér.“