Lofgjörðarfórn fyrir Guð

1 Bróðurkærleikurinn haldist. 2 Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita. 3 Minnist bandingjanna sem væruð þið sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða þar eð þið finnið til eins og þeir.
4 Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.
5 Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ 6 Því getum við örugg sagt:
Drottinn er minn hjálpari,
eigi mun ég óttast.
Hvað geta mennirnir gert mér?

7 Minnist leiðtoga ykkar sem Guðs orð hafa til ykkar talað. Virðið fyrir ykkur hvernig ævi þeirra lauk og líkið eftir trú þeirra. 8 Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.