1 Allir þeir sem eru ánauðugir skulu sýna húsbændum sínum allan skyldugan heiður til þess að nafni Guðs og kenningunni verði ekki lastmælt. 2 En þeir sem eiga trúaða húsbændur skulu ekki lítilsvirða þá vegna þess að þeir eru systkin í trúnni[ heldur þjóni þeir þeim því betur af því að þeir eru trúaðir og elskaðir og gera sér far um að koma vel fram við þá.
Kenn þú þetta og boða það.

Sönn guðhræðsla og fölsk

3 Ef einhver fer með villukenningar og fylgir ekki hinum heilnæmu orðum Drottins vors Jesú Krists og því sem trú okkar kennir, 4 þá hefur hann ofmetnast og veit ekki neitt. Hann er sótttekinn af þrætum og orðastælum. Af þessu fæðist öfund, deilur, lastmæli, vondar hugsanir, 5 þjark og þras hugspilltra manna sem eru sneyddir sannleikanum en skoða trúna sem gróðaveg.
6 Já, trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. 7 Því að ekkert höfum við inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan.
8 Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja. 9 En þeir sem ríkir vilja verða falla í freistni og lenda í snöru alls kyns óviturlegra og skaðlegra fýsna er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.
10 Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.