13 Allir þessir menn dóu í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni. 14 Þeir sem slíkt mæla sýna með því að þeir eru að leita eigin ættjarðar. 15 Hefðu þeir haft í huga ættjörðina sem þeir fóru frá, hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur. 16 En nú þráðu þeir betri ættjörð og himneska. Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir að kallast Guð þeirra því að borg bjó hann þeim.
17 Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum. 18 Við Abraham hafði Guð mælt: „Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir.“ 19 Hann hugði að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum og hann heimti líka son sinn úr helju ef svo má að orði komast.
20 Fyrir trú blessaði Ísak þá Jakob og Esaú einnig fyrir ókomna tíma.
21 Fyrir trú blessaði Jakob, að dauða kominn, báða sonu Jósefs, „laut fram á stafshúninn og baðst fyrir“.
22 Fyrir trú minntist Jósef við ævilokin á brottför Ísraelsmanna og gerði ráðstöfun fyrir beinum sínum.