Holdsveiki

1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
2 „Þegar bólga, útbrot eða hvítur blettur myndast á hörundi einhvers og verður að holdsveikiskellu á húð hans skal leiða hann fyrir Aron prest eða einhvern af prestunum, sonum hans. 3 Presturinn skal þá skoða skelluna á hörundinu. Hafi hárið á skellunni litast hvítt og skellan virðist liggja dýpra en hörundið umhverfis er þetta holdsveiki. Þegar prestur hefur skoðað hann skal hann úrskurða hann óhreinan.
4 Virðist hvíti bletturinn á hörundi hans ekki liggja dýpra en hörundið umhverfis og hafi hárið á honum ekki litast hvítt skal presturinn einangra í sjö daga þann sem skelluna hefur. 5 Á sjöunda degi skal presturinn skoða hann aftur. Staðfesti hann þá með eigin augum að skellan sé óbreytt og hafi ekki breiðst út um hörundið skal presturinn einangra hann aftur í sjö daga. 6 Á sjöunda degi skal presturinn enn skoða hann. Staðfesti hann þá með eigin augum að skellan hafi dofnað og ekki breiðst út um hörundið skal presturinn úrskurða hann hreinan. Þetta eru þá útbrot og hann skal þvo klæði sín og verður hreinn.
7 Breiðist útbrotin um hörundið eftir að sá sem skelluna fékk var skoðaður af prestinum til þess að verða úrskurðaður hreinn skal hann enn einu sinni ganga fyrir prestinn. 8 Presturinn skal skoða hann. Staðfesti hann þá að útbrotin hafi breiðst út á hörundinu skal presturinn úrskurða hann óhreinan. Þetta er holdsveiki.