Lifandi von

3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum 4 og veitt oss óforgengilega, flekklausa og ófölnandi arfleifð sem yður er geymd á himnum. 5 Kraftur Guðs varðveitir yður sem trúið til þess að þér öðlist hjálpræðið sem albúið bíður þess að opinberast á efsta degi.
6 Fagnið því þótt þið nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum. 7 Það er til þess að trúfesti ykkar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó er reynt í eldi, geti orðið ykkur til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists. 8 Þið hafið ekki séð hann en elskið hann þó. Þið hafið hann ekki nú fyrir augum ykkar en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði 9 þegar þið eruð að ná takmarki trúar ykkar, frelsun sálna ykkar.
10 Þessa frelsun könnuðu spámennirnir og rannsökuðu vandlega þegar þeir töluðu um þá náð sem ykkur mundi hlotnast. 11 Þeir rannsökuðu til hvers eða hvílíks tíma andi Krists, sem í þeim bjó, benti þá er hann vitnaði fyrir fram um píslir Krists og dýrðina þar á eftir. 12 En þeim var opinberað að eigi væri það fyrir sjálfa þá heldur fyrir ykkur að þeir þjónuðu að þessu sem ykkur er nú kunngjört af þeim sem boðuðu ykkur fagnaðarerindið í heilögum anda sem er sendur frá himni. Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast.