22Múgurinn réðst og gegn þeim og höfuðsmennirnir létu fletta þá klæðum og skipuðu að húðstrýkja þá. 23 Þegar þeir höfðu lostið þá mörg högg vörpuðu þeir þeim í fangelsi og buðu fangaverðinum að gæta þeirra vandlega. 24 Þegar hann hafði fengið slíka skipun varpaði hann þeim í innsta fangelsið og felldi stokk á fætur þeim.
25 Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði en bandingjarnir hlustuðu á þá. 26 Þá varð skyndilega landskjálfti mikill svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr og fjötrarnir féllu af öllum. 27 Fangavörðurinn vaknaði við og er hann sá fangelsisdyrnar opnar dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér þar eð hann hugði fangana flúna. 28 Þá kallaði Páll hárri raustu: „Ger þú sjálfum þér ekkert mein, við erum hér allir!“ 29 Fangavörðurinn bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi. 30 Síðan leiddi hann þá út og sagði: „Herrar mínir, hvað á ég að gera til að verða hólpinn?“
31 En þeir sögðu: „Trú þú á Drottin Jesú og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.“ 32 Og þeir fluttu honum orð Drottins og öllum á heimili hans. 33 Samstundis tók fangavörðurinn þá með sér um nóttina, laugaði meiðsli þeirra eftir höggin og var hann þegar skírður og allt hans fólk. 34 Síðan fór hann með þá upp í hús sitt, bar þeim mat og hann og allt heimafólk hans fagnaði yfir því að hafa tekið trú á Guð.