1 Þá kvaddi Jósúa til sín niðja Rúbens og Gaðs og hálfan ættbálk Manasse 2 og sagði við þá: „Þið hafið fylgt öllu, sem Móse, þjónn Drottins, lagði fyrir ykkur. Þið hafið einnig hlýtt öllu sem ég bauð ykkur. 3 Allan þennan tíma og allt til þessa dags hafið þið ekki brugðist bræðrum ykkar. Þið hafið gætt þess að halda boð Drottins, Guðs ykkar, í einu og öllu. 4 En nú hefur Drottinn, Guð ykkar, veitt bræðrum ykkar öryggi og frið, eins og hann hafði heitið þeim. Snúið því aftur til tjalda ykkar, til ykkar eigin lands sem Móse, þjónn Drottins, fékk ykkur handan Jórdanar. 5 En gætið þess vandlega að halda boð það og lögmál sem Móse, þjónn Drottins, lagði fyrir ykkur, að elska Drottin, Guð ykkar, ganga á öllum vegum hans, halda öll boð hans, bindast honum og þjóna af öllu hjarta og allri sálu.“
6 Að svo mæltu kvaddi Jósúa þá, lét þá fara og héldu þeir til tjalda sinna.