Nýr lofsöngur

10Syngið Drottni nýjan söng,
syngið lof hans frá endimörkum jarðar,
hafið fagni og allt sem í því er,
fjarlægar eyjar og íbúar þeirra.
11Eyðimörkin og borgir hennar hrópi
og þorpin þar sem Kedar býr,
íbúar Sela syngi af gleði
og hrópi frá fjallatindunum.
12Þeir gefi Drottni dýrðina
og kunngjöri lof hans á fjarlægum eyjum.
13Drottinn heldur af stað sem hetja,
glæðir hugmóð eins og bardagamaður,
hann lýstur upp herópi
og ber sigurorð af fjandmönnum sínum.
14Ég hef þagað frá öndverðu,
verið hljóður og ekki hafst að.
Nú mun ég hljóða eins og kona í barnsnauð,
stynja og standa á öndinni.
15Ég mun láta fjöll og hálsa skrælna
og svíða allan gróður á þeim,
gera árnar að þurrlendi
og tjarnirnar þurrka ég upp.
16Ég leiði blinda um braut sem þeir rata ekki,
læt þá ganga vegi sem þeir þekkja ekki,
ég geri myrkrið fyrir augum þeirra að birtu
og ójöfnur sléttar.
Þessi verk vinn ég
og læt það ekki ógert.
17Þeir sem treysta skurðgoðunum
skulu hörfa og verða sér til skammar,
þeir sem segja við steypt líkneski:
„Þér eruð guðir vorir.“