Gyðingar og lögmálið

17 En nú kallar þú þig Gyðing, treystir á lögmálið og ert hreykinn af Guði þínum. 18 Þú þekkir vilja hans og kannt að meta rétt það sem máli skiptir þar eð lögmálið fræðir þig. 19 Þú treystir sjálfum þér til að vera leiðtogi blindra, ljós þeirra sem eru í myrkri, 20 kennari fávísra, fræðari óvita þar sem þú hafir þekkinguna og sannleikann skýrum stöfum í lögmálinu. 21 En þú sem fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Þú prédikar að ekki skuli stela og stelur þó. 22 Þú segir að ekki skuli drýgja hór og drýgir samt hór. Þú hefur andstyggð á skurðgoðum og rænir þó hof þeirra. 23 Þú hrósar þér af lögmálinu og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið. 24 Svo er sem ritað er: „Nafn Guðs er ykkar vegna lastað meðal heiðingja.“
25 Umskurn kemur því aðeins að gagni að þú haldir lögmálið. En ef þú brýtur gegn því er umskurn þín orðin að engu. 26 Ef óumskorinn maður fer eftir kröfum lögmálsins mun hann þá ekki metinn svo sem umskorinn væri? 27Og mun þá ekki sá sem er óumskorinn og heldur lögmálið dæma þig sem þrátt fyrir bókstaf og umskurn brýtur lögmálið? 28 Sá er ekki Gyðingur sem er það hið ytra og það er ekki umskurn sem sést á líkamanum. 29 Hinn er Gyðingur sem er það hið innra og umskorinn er sá sem er það í hjarta sínu, í hlýðni við andann, ekki bókstafinn. Hann þiggur ekki lof af mönnum heldur Guði.